Eftirfarandi eru þær stefnur sem Capacent ehf., kt. 521022-0350, tekur mið af í starfsemi sinni og taka til sjálfbærni, persónuverndar, stjórnhátta ásamt stefnu í starfsmanna- og jafnlaunamálum. Stefnur þessar eru uppfærðar reglulega og þegar tilefni er til endurskoðunar.
■
SJÁLFBÆRNI
Capacent leitast við að hafa sjónarmið um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð í fyrirrúmi í starfsemi sinni. Við trúum því að með því að sýna samfélagslega ábyrgð og nýta sjálfbærar lausnir stuðlum við að hagkvæmni og sköpum ótvíræðan ávinning fyrir samfélagið í heild. Við leggjum okkur fram við að taka mið af sjálfbærnimarkmiðum í starfsemi okkar eins og þau eru sett fram í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna taka til þriggja megin stoða sjálfbærrar þróunar sem eru umhverfisleg, félagsleg og efnahagsleg og virka saman sem ein heild.
Við leggjum upp með að hafa sjálfbærni að leiðarljósi og hvetjum viðskiptavini og samstarfsaðila okkar til að gera slíkt hið sama. Við höldum umhverfisáhrifum af starfsemi okkar í lágmarki og leitumst m.a. við að nýta vistvænar samgöngur, notast við endurnýjanlega orku og leggja stund á ábyrga meðhöndlun úrgangs. Með þessum hætti leggjum við okkar lóð á vogaskálarnar til að skapa betra samfélag, hafa jákvæð áhrif á umhverfi okkar og búa í haginn fyrir sjálfbæra framtíð.
■ PERSÓNUVERND
Persónuvernd þín skiptir máli, okkur er umhugað um öryggi og verndun þeirra gagna sem við meðhöndlum og verða til í starfsemi okkar. Capacent leggur áherslu á að taka mið af ákvæðum laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga ásamt örðum reglum sem gilda hverju sinni um persónuvernd, vinnslu og varðveislu persónugreinanlegra upplýsinga.
MARKMIÐ
Capacent kann að safna, vinna og varðveita persónuupplýsingar bæði sem ábyrgðaraðili og vinnsluaðili í skilningi laga um persónuvernd. Stefna þessi tekur til persónuupplýsinga, hvort sem þeim er safnað rafrænt, þær varðveittar með rafrænum hætti, á pappír eða með öðrum sambærilegum hætti.
Markmið okkar er að þeir aðilar sem við getur átt hverju sinni séu upplýstir um hvernig við söfnum, vinnum, vistum og eftir atvikum miðlum persónugreinanlegum upplýsingum.
SÖFNUN, VINNSLA OG MIÐLUN
Capacent safnar aðeins upplýsingum, um starfsfólk, umsækjendur, samstarfsaðila og viðskiptavini, sem okkur er nauðsynlegt að safna, vinna með og skylt að varðveita í samræmi við lög og reglur. Slík söfnun, varðveisla og vinnsla byggir á samþykki hins skráða, samningum, heimild laga eða vegna annarra lögmætra hagsmuna. Upplýsingar um umsækjendur eru unnar og þeim miðlað í þeim tilgangi að meta hæfi viðkomandi til umsóknar um starf.
Capacent safnar einungis upplýsingum sem nauðsynlegar eru, og heimilt er að safna, til að geta veitt umbeðna ráðgjöf eða þjónustu. Kjósi viðskiptavinur eða aðrir að veita ekki nauðsynlegar upplýsingar kann að svo að fara að Capacent geti ekki innt af hendi umbeðna ráðgjöf og þjónustu.
ÖRYGGI OG VARÐVEISLA
Capacent leggur áherslu á að tryggja varðveislu persónuupplýsinga með viðeigandi öryggisráðstöfunum. Persónuupplýsingar og aðrar upplýsingar eru varðveittar með öruggum hætti í tölvukerfum félagsins eða öðrum kerfum sem eru í hýsingu fagaðila. Sem vinnsluaðili varðveitir Capacent upplýsingar eins lengi og vinnslusamningur kveður á um, málefnalegar ástæður eru til og lög leyfa.
Capacent nýtir ekki persónuupplýsingar í öðrum en málefnalegum tilgangi eða þeim sem þær voru safnaðar fyrir og afhendir þær ekki óviðkomandi. Upplýsingarnar kunna hins vegar að verða afhentar á grundvelli lagaheimildar, stjórnvaldsfyrirmæla, dómsúrskurðar eða upplýsts samþykkis. Capacent áskilur sér rétt til að afhenda þriðja aðila ópersónugreinanlegar upplýsingar í málefnalegum og lögmætum tilgangi.
VARÐVEISLUTÍMI
Gögn sem Capacent vinnur og safnar hvort heldur sem ábyrgðaraðili eða sem vinnsluaðili, eru varðveitt í samræmi við ákvæði reglna um persónuvernd hverju sinni. Við varðveitum ekki persónuupplýsingar lengur en nauðsyn ber til, lög kveða á um og heimila. Gögnunum skal eytt þegar hagnýtt gildi er ekki lengur fyrir hendi.
ENDURSKOÐUN
Persónuverndarstefna þessi er endurskoðuð reglulega og ef sérstök þörf krefur, svo sem vegna breyttra lagaákvæða, nýrra fyrirmæla eða túlkunar á framkvæmd laga um persónuvernd.
■
STJÓRNHÆTTIR
Capacent leitast við að fylgja leiðbeiningum um góða stjórnhætti fyrirtækja, eins og þær eru settar fram í þeirri útgáfu sem gefin hefur verið út á vegum Viðskiptaráðs Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Kauphöll íslands (Nasdaq Iceland), og við getur átt gagnvart starfsemi félagsins eins og hún er uppbyggð frá einum tíma til annars. Leiðbeiningarnar fela almennt í sér nokkuð ýtarleg tilmæli til viðbótar við lög og reglur sem þegar gilda og fyrirtækjum ber að fylgja hverju sinni.
Meginmarkmið leiðbeininganna er að stuðla að góðum stjórnháttum með því að skýra bæði hlutverk og ábyrgð stjórnar og stjórnenda fyrirtækja og tryggja sem best hlítni við gildandi lög. Leiðbeiningarnar auðvelda forráðamönnum að rækja störf sín á ábyrgan hátt og treysta um leið hag hluthafa, starfsmanna og annarra hagaðila.
Með því að fylgja góðum stjórnháttum og hlíta lögum styrkjum við innviði samfélagsins, fyrirtækja, stofnana og eflum almennt traust. Slík háttsemi styrkir starfsumhverfi okkar og eykur traust í samfélaginu gagnvart íslensku viðskiptalífi og hefur þannig um leið áhrif á aukna samkeppnishæfni.
■
STARFSMANNA- OG JAFNLAUNASTEFNA
Capacent leggur ríka áherslu á að ráða til sín hæft starfsfólk og samstarfsaðila sem til hafa að bera viðeigandi hæfni, þekkingu og reynslu til að sinna verkefnum fyrirtækisins og í takt við þær kröfur sem gerðar eru til okkar hverju sinni.
Allar ráðningar skulu þannig byggjast á mati sem tekur meðal annars mið af menntun, starfsreynslu og persónuhæfi viðkomandi eins og skilgreint er fyrir viðeigandi starf eða starfssvið. Þá leggur Capacent áherslu á að fá til liðs við félagið starfsfólk og samstarfsaðila sem hafa til að bera jákvætt viðhorf og hafa tamið sér heiðarleika, virðingu og samvinnuhæfni.
Capacent leitast við að tryggja jafnrétti innan vinnustaðarins og við gerum það sem er í okkar valdi stendur til að tryggja jöfn tækifæri og jöfn starfskjör fyrir sambærileg og jafn verðmæt störf óháð kyni, trú eða uppruna. Við leitumst við að fylgja ákvæðum laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði ásamt öðrum þeim reglum sem gilda almennt á vinnumarkaði hverju sinni og taka m.a. til jafnréttis og jafnrar stöðu.
Það er stefna Capacent að sambærileg laun skuli greidd fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf. Þannig er það stefnan að tryggja, í takt við reglur á vinnumarkaði, að hver og einn fái greitt fyrir störf sín að teknu tilliti til menntunar, ábyrgðar, álagi, frammistöðu, verðmætis og ríkjandi aðstæðum á vinnumarkaði.
Við leggjum okkur fram um að skapa starfsumhverfi sem er hvetjandi, jákvætt, árangursdrifið, að starfsandi sé góður og starfsfólki líði almennt vel í vinnu fyrir fyrirtækið. Þá er mikilvægt að tryggja að jafnvægi ríki milli vinnu og einkalífs og að tekið sé tillit til þess meðal annars með sveigjanlegum vinnutíma eins og við getur átt.
Capacent leggur áherslu á að starfsfólk sé ábyrgt í starfi sínu og komi fram af fagmennsku fyrir hönd fyrirtækisins, gagnvart samstarfsfólki, viðskiptavinum og öðrum samstarfsaðilum. Þá gætum við trúnaðar í störfum okkar um málefni félagsins, samstarfsmanna, viðskiptavina og samstarfsaðila um málefni sem trúnaður skal ríkja um eðli máls samkvæmt.
Einelti, kynferðislegt áreiti eða annað form ofbeldis er ekki liðið og er það á sameininglega ábyrgð fyrirtækisins og starfsfólks að koma í veg fyrir og uppræta slíka hegðun á vinnustaðnum okkar.
Við leggjum áherslu á frumkvæði og samvinnu í starfi og að starfsfólk okkar sýni hvort öðru stuðning. Þannig leggjum við okkur fram um að allir geti þroskast og vaxið í starfi.
Bjargargata 1 (Gróska)
102 Reykjavík
Kt. 521022 0350